Efnamóttakan tekur nú þátt í tilraunaverkefni með Reykjavíkurborg og Sorpu um að stuðla að betri skilum á spilliefna- og raftækjaúrgangi í réttan farveg og draga úr urðun þessara efna. Gerður er út SPILLIVAGNINN sem staðsettur verður á fyrirframákveðnum og -auglýstum tímum úti í hverfum borgarinnar til að auðvelda fólki skilin og vekja athygli á réttri meðferð og flokkun spilliefna og raftækja.

Gefum Eygerði Margrétardóttur, deildarstjóra umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg orðið:

„Ástæðan fyrir því að við erum að fara af stað með þetta verkefni er sú að það er talið að um 150 tonn af raftækjum og spilliefnum hafi verið urðuð í Álfsnesi í fyrra. Það er það magn sem kemur frá heimilum í Reykjavík í gegnum gráu tunnurnar. Það eru mörg fordæmi fyrir svona þjónustu erlendis og við horfum meðal annars til reynslu frá Bretlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Þetta er samstarfsverkefni borgarinnar, Sorpu og Efnamóttökunnar en við vonumst til að fleiri sveitarfélög taki þátt. Þau hafa áhuga en það náðist ekki núna.“

Verkefnið hófst formlega í gær þegar Spillivagninn heimsótti íbúa Laugardals og nágrennis. Hann mun fram til 6. desember heimsækja öll tíu hverfi borgarinnar og geta borgar­búar þá komið með spilliefni og smærri raftæki. Sama þjónusta verður síðan endurtekin nk. vor.

Smellið hér til að finna upplýsingar um hvar Spillivagninn verður staðsettur og á hvaða tímum!