Það er afar mikilvægt að úrgangshafi veiti réttar og nákvæmar upplýsingar um hvaða efni hann er að skila inn til förgunar svo að starfsmenn Efnamóttökunnar hf. geti flokkað þau í réttan flokk og valið rétta eyðingaraðferð. Val umbúða og frágangur hefur áhrif á kostnað við eyðingu efnanna. Úrgangshafa ber að gefa skriflegar upplýsingar um þau efni sem hann óskar eftir eyðingu á. Hann er ábyrgur fyrir því að veittar upplýsingar séu réttar. Rangar og ófullnægjandi upplýsingar geta valdið slysum og aukakostnaði fyrir þann aðila sem kemur með efnið til eyðingar.


Umbúðir

Spilliefni í litlu magni er best að senda til Efnamóttökunnar hf. í upprunalegum umbúðum. Ef aðrar umbúðir eru notaðar er nauðsynlegt að merkja þær með efnaheiti og afmá gömlu merkingarnar. Tómar umbúðir undan olíumálningu, ryðvarnarefnum og þess háttar, ásamt notuðum olíu-, eldsneytis- og loftsíum má setja í járn- eða plasttunnur með spenniloki. Efnamóttakan hf. útvegar viðurkenndar umbúðir og ílát fyrir spilliefni.